17.4.2008 | 13:22
Eru mótmæli bílstjóra að fjara út!
Hvað hefur komið út úr mótmælum vörubílstjóra? Svar, ekki neitt, stjórnmálamenn láta eins og ekkert sé, þó að almenningur hafi staðið að mestu með bílstjórum sem hafa mótmælt friðsamlega og reynt að komast hjá skemmdum eða vandræðum almennt og verið í raun mjög þægir mótmælendur.
Hér á landi er ekki hefð fyrir því að fólk mótmæli stjórnvöldum, þeir sem hafa mótmælt stjórnvöldum hafa verið gerðir að aðhlátursefni eða komið fram við þá líkt og hryðjuverkamenn. Íslendingar eru ekki vanir að fara út og mótmæla ef þeim er misboðið.
Flestir voru orðlausir þegar mótmæli voru við Kárahnjúka, stjórnmálamenn og fjölmiðlar stilltu mótmælendum upp eins og furðufólki sem hefði ekki vit á því sem það var að gera. Mótmælunum var ekki svarað. Þó svo að menn eins og fræðimenn og Ómar Ragnarsson öfluðu miklu efni og sýndu fram á að framkvæmdirnar myndu ganga of nærri náttúrunni. Er ekki eðlilegt að fólk hafi skoðun á slíku?
Nú virðast vörubílstjórar vera að missa móðinn, það er búið að drepa niður mótmæli þeirra með því að hundsa þá og virða ekki skoðanir þeirra. Hugsanlega er þetta klókt af stjórnvöldum að láta sem ekkert sé þó umferðartafir séu um allan bæ og fólk komist ekki leiðar sinnar.
Þetta getur verið hluti af uppeldistefnu nútíma lýðræðis, ekki gefa neitt eftir, því ef við gefum eftir eina karamellu þá mun þjóðin öskra enn hærra og mótmæla oftar og oftar.
Já þetta eru klókar uppeldisaðferðir sem ég notaði á börnin mín í búðum, en ég hef nú ekki náð að vera svona þrjósk, það eiga allir einhverjar stoðir í sínum málstað.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.