Færsluflokkur: Tónlist

Jafnréttisþing í Mosfellsbæ og engin jafréttisviðurkenning.

Í dag var haldið jafnréttisþing í Mosfellsbæ heimabæ mínum þingið var haldið til heiðurs Helgu J. Magnúsdóttur sem var fyrst kvenna oddviti hér á landi. Á þessu ári eru 50 ár frá því að Helga tók við sæti oddvita í Mosfellsveit. Fæðingardagur Helgu er í dag 18 september, Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti að þessi dagur skulu hér eftir vera jafnréttisdagur hér í Mosfellsbæ.

Dagskrá þingsins var mjög skemmtileg og fróðleg, Salóme Þorkelsdóttir fyrrverandi alþingiskona flutti erindi um Helgu ættir hennar og störf, í erindinu kom fram að Helga þurfti sem oddviti að sjá um öll mál hreppsins og fólk þurfti að koma til hennar og greiða reikninga sína. En þegar hún gaf ekki kost á sér aftur þá var ráðinn starfsmaður til þessara starfa hjá hreppnum. Einnig kom fram að Helga hafði gefið sig að jafnréttismálum alla tíð og sat í ýmsum kvenfélögum og var formaður Kvenfélagasambands Íslands. 

Auður Styrkársdóttir forstöðumaður kvennasögusafns Íslands flutti erindi um stöðu kvenna í sveitarstjórnum og kom þar fram að kosningakerfið á Íslandi er ekki sértaklega kvenvænt því konur eru síður en karlar tilbúnar til að taka þátt í prófkjörum og hafa síður aðgang að fjármagni eins og karlarnir.

Dagný Kristjánsdóttir prófessor flutti erindi um konur í verkum Halldórs Laxness þar sem kom fram að Halldór hafði ótrúlegt innsæi í heim kvenna og umræður spunnust um kynbundið ofbeldi í verkum hans. Konur í verkum Halldórs eru sterkar persónur sem oft gjalda fyrir óréttlæti samtíma síns en bera sig oft vel eru töff og kúl, en þær bera þá byrgði sem lögð er á þær. Hann hefur sérstaka næmni fyrir heimi kvenna það kom fram að hann er í raun sálarfræðlega þenkjandi að þessu leiti. 

Athygli vakti að í auglýstri dagskrá átti að vera afhending jafnréttisviðurkenningar Mosfellsbæjar en formaður fjölskyldunefndar tilkynnt að ekkert yrði af þeirri athöfn þar sem enginn hafði sent inn ábendingu um hver ætti að fá viðurkenningu þetta árið. 

 


Mæðrastyrksnefnd 80 ára

Ég fór í glæsilega veislu hjá Mæðrastyrksnefnd í dag þar sem haldið var upp á 80 ára afmæli hennar. Upphaf nefndarinnar má rekja til þess að styrkja þurfti einstæðar konur þegar ekki var um neinn lífeyri eða styrk frá hinu opinbera að ræða. Fyrstu styrkir voru veittir ekkjum skipverja á Jóni forseta en starfið hélt áfram þar sem stofnkonur nefndarinnar sáu fram á nauðsyn slíkrar aðstoðar. Þær konur sem stóðu að Kvenréttindasambandinu þótti ekki stætt að fjölskyldum yrðir tvístrað ef fyrirvinnan félli frá eins og tíðkaðist á þeim tíma og reyndu eftir megni að styðja við bak þeirra sem áttu um sárt að binda og börðust fyrir því að yfirvöld sýndu málinu skilning.

Ragnhildur G. Guðmundsdóttir er form. nefndarinnar í dag, hún greindi frá hve mikilvægt starfið er og því miður enn nauðsynlegur þáttur í velferðarþjónustu á höfuðborgarsvæðinu þar sem um 160 fjölskyldur leita aðstoðar í viku hverri.

Þær konur sem standa að nefndinni voru heiðraðar með listmun frá listakonunni Koggu og fengu ferfalt húrrahróp sem þær eiga fyllilega skilið fyrir sína fórnfúsu vinnu sem er óeigingjörn og unnin í sjálfboðastarfi. Fram kom í máli þeirra sem fluttu ávörp að það er ekki auðvelt að vera góður og geta unnið slík störf því það er erfitt að horfa upp á eymd samferðamanna sinna,  það þarf því sterkt hjartalag í slík störf.

Einnig kom fram að samfélagði hefur jafnvel sparað sér mikla fjármuni með því að hafa slíka starfsemi gangadi en það er þó ljóst að í öllum samfélögum er slík aðstoð nauðsyneg. 

Samfélagið á þeim konum sem hafa unnið fyrir Mæðrastyrksnefnd  í gegn um tíðina mikið að þakka.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband